
Veit einhver hver Olden Polynice er...??? nei, ekki ég heldur.. mm eða jú eiginlega. Þetta er semsagt gaurinn sem Seattle fékk í staðinn fyrir Scottie Pippen á sínum tíma. Hafa eflaust nagað sig illilega í handabakið því eins og menn vita þá varð Pippen hluti af mesta sigurliði seinni tíma í NBA körfuboltanum. En nú er semsagt komið að því að þessi ástsæli körfuknattleiksmaður ætlar að leggja skóna á hilluna. Á svona tímamótum rifjast upp fyrir manni þær góðu stundir sem maður átti á vorin hér í gamla daga fyrir framan sjónvarpið. Vaknaði um miðja nótt, náði sér í kók og popp og lagðist svo upp í sófa til að horfa á NBA úrslitin. Það fer um mig sæluhrollur. Sérstaklega er mér minnisstætt einvígið milli Chicago og Phoenix Suns þegar menn eins og Charles Barkley og Frank "hvar er þá Kevin" Johnson voru að spila á móti Jordan, Pippen og auðvitað John Paxon. Þetta voru líka fyrstu úrslitin sem ég horfði á af alvöru, enda ekki nema 13 ára á þessum tíma. Þetta átti maður á spólu.. og á enn og horfði á þetta aftur og aftur.
Ég fór eiginlega að halda með Pippen vegna þess að það héldu allir með Jordan og ég nennti ekki að vera eins og allir hinir, aldrei þessu vant. Í ljós kom að pippen var einstaklega duglegur leikmaður.. skoraði ekki mest, varði ekki flest skot, tók ekki flest fráköst, en var ofarlega í öllu saman, sem gerði hann að einum besta NBA leikmanni sögunnar. Svona leikmenn hafa oftast verið í skugganum en Pippen er einn af þeim sem náðu að skína, allavega fyrir mér. Svipað og er að gerast núna með Detroit leikmennina, sem gera þetta ekki bara út á lúkkið heldur af grimmd og dugnaði. Finnst hafa vantað svona leikmenn í gegnum tíðina. Það er því með söknuði sem ég kveð félaga minn, Pip eins og hann var kallaður, úr boltanum og vona að maður fái að sjá hann allavega þjálfa eitthvað lið í framtíðinni. Held að það verði seint jafn gaman að halda með einhverjum eða einhverju liði eins og Pippen og Bulls á gullárunum ´90-´93.
