DE HITTI ÁTRÚNAÐARGOÐIÐ
Djö. rugl. Mætti á fyrirlesturinn hjá Sir David Attenborough kl. 19:50 á fimmtudagskvöldið og hann átti að byrja 20:30 í Tónlistarhúsi Kópavogs (og þið sem vitið ekki hver David Attenborough er eruð fífl... eða allavega lokuð ofan í súrkálsdós). Jæja ég mæti og er þá ekki röð hálfa leið heim til Johnny út í Hafnarfirði. Svo er opnað og röðin silast inn og loks þegar ég kem inn í aðalsalinn þá held ég sveimérþá að það hafi einhver akkúrat sest í síðasta sætið. Ég ætla þá bara að standa til hliðar í salnum, en NEI það mátti ekki og ég og Jóndi félagi minn urðum að gjöra svo vel að horfa á fyrirlesturinn í hliðarsal varpað á tjald. Og til að kóróna fáránlega staðsetningu fyrirlestursins (í einhverjum sal sem ca. 450 manns geta setið) þá gátu þeir ekki drullast til að hafa hljóðið almennilegt fyrir þá sem þurftu að horfa á tjaldfyrirlesturinn. Eina góða við þetta var að við vorum fyrstir út og yfir á bókasafnið þar sem kallinn áritaði nýju bókina sína og þurftum því ekki að bíða í endalausri röð eftir áritun. Vona að þeir sem sátu í salnum hafi ekki fengið neina áritun. Og nú er ég glaður eigandi áritaðrar "Heimur Spendýranna". Ég hellti mér reyndar yfir David og sagði honum hvurslags fávitaskapur þetta væri að hafa fyrirlestur hjá eins frægum manni og honum sjálfum í svona litlum sal (gerði þetta reyndar í huganum). Svo sagði ég bara Thankjú sör þegar hann var búinn að árita.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli